Djúptæknikjarni

Í kjölfar stefnumótunar Vísindagarða Háskóla Íslands, sem lauk í júlí 2021, ákvað stjórnin að setja af stað fýsileikakönnun á byggingu Djúptæknikjarna (e. deep tech center). Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum hagaðilum frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum og fengið jákvæðar undirtektir. Málið hefur verið á dagskrá Háskólaráðs reglulega og þann 7. desember 2023 samþykkti ráðið samstarfsyfirlýsingu um Djúptæknikjarna. Í kjölfarið tók stjórn Vísindagarða ákvörðun um að hefja frekari undirbúning að byggingu fyrir starfsemina á lóðinni Bjargargötu 3 á Vísindagörðum.

„Fyrirhugaður djúptæknikjarni býður upp á mjög mikla möguleika til þverfaglegar samvinnu sem teygir sig inn á öll fræðasvið. Hugmyndin byggir jafnframt á núverandi stefnu Háskóla Íslands, þ.e. að efla grunnrannsóknir og fjölga birtingum vísindagreina ásamt því að bæta aðstöðu skólans og starfsfólks til að taka þátt í alþjóðlegu og innlendu samstarfi.“

— Jón Atli Benediktsson, Rektor Háskóla Íslands

Hvað er djúptæknikjarni?

„Í minni grein, skurðaðgerðartækni, þá er djúptækni forsenda þess að það geti orðið framfarir.“

– Ásþór Tryggvi Steinþórsson, Reon Tech

Djúptæknikjarni er nauðsynlegur til að Ísland geti þróað sinn efnahag í því sem hefur verið kallað fjórða iðnbyltingin. 

Það má segja að Djúptæknikjarninn verði nokkurs konar innviðir eins og t.d. höfn, flugvöllur eða vegir. Allir hafa aðgang að innviðum, við notum þá sameiginlega og þeir eru nauðsynlegir svo efnahagskerfið geti blómstrað. Þannig verða í húsinu tæki sem krefjast sérþekkingar til reksturs. Þar verða tæki sem eru svo sérhæfð að ekki er grundvöllur fyrir nema einu slíku fyrir landið allt. Þeir sem á þurfa að halda hafa þá aðgang að því í Djúptæknikjarnanum.

Í Djúptæknikjarnanum verður hægt að stunda grunnrannsóknir af hálfu allra háskólanna. Grunnrannsóknir sem styrktar eru bæði af stjórnvöldum en eins frá erlendum aðilum t.d. gegnum styrkjakerfi Evrópusambandsins. Þar geta fyrirtækin í landinu fengið aðgang vegna þróunar flókinnar tækni og hægt verður að gera samninga við erlend fyrirtæki um aðstöðu til lengri eða skemmri tíma.

Þá verður húsið samhæfingarmiðstöð og samfélag akademíu, sprotafyrirtækja og stærri fyrirtækja. Þar verður til þverfaglegt samstarf þar sem fólk deilir þekkingu og reynslu með allt öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Þar liggja líklega langstærstu tækifærin til framtíðar.

„Í dag gengur vísindastarf út á aukið alþjóðlegt samstarf. Djúptæknikjarninn mun auðvelda okkur að taka þátt í því.“

– Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ

Hvers vegna djúptæknikjarni?

a) uppfylla stefnu Innviðasjóðs um opinn aðgang að rannsóknarinnviðum

b) veita stjórnvöldum betri yfirsýn yfir rekstur og notkun innviða sem þau fjármagna úr Innviðasjóði

c) skapa aðstöðu og innviði sem allir hafa aðgang að

d) auka sýnileika rannsókna og nýsköpunar, ásamt betri nýtingu innviða

e) vera mikilvægur þáttur í samstarfi háskólanna í takt við áherslur ráðherra bæði hvað varðar rekstur og fjárfestingar

f) auka líkur á því að fá styrki erlendis frá og taka þátt í fjölþjóðlegum verkefnum. Með tilkomu djúptæknikjarnans skapast einnig margvíslegir möguleikar til að gera rannsóknar- og þróunarsamninga við erlenda rannsóknarhópa og fyrirtæki.

Tímalína

Undirbúningsvinna vegna Djúptæknikjarna hefur verið í gangi síðan 2021. Frá og með 2024 fer fram áframhaldandi vinna við mótun viðskipta- og rekstrarmódels og einnig lagður grundvöllur að þverfaglegri samvinnu og samstarfsyfirlýsingum sem  gert er ráð fyrir að teygi sig inn á öll fræðasvið. Samhliða þessari vinnu verður unnið að undirbúningi vegna byggingar hússins.

„Hús er bara hús, bara steinsteypa. Djúptæknikjarni er ekkert án fólksins og þekkingarinnar sem það hefur.“

– Hans Guttormur Þormar, fv. verkefnastjóri Djúptæknikjarna

„Djúptæknikjarninn býður upp á ótal tækifæri fyrir sprotafyrirtæki. Þess vegna er mjög mikilvægt að sprotar fái greiðan aðgang.“

– Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, Klak Icelandic Startups

Byggingarnefnd
Skipan byggingarnefndar Djúptæknikjarna er lokið. Nefndina skipa:

• Hrólfur Jónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vísindagarða, formaður

• Guðmundur Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu HÍ, tilnefndur af HÍ, skipaður af stjórn Vísindagarða

• Sigríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá NLSH, skipuð af stjórn Vísindagarða

Jafnframt munu Lára Kristín Stefánsdóttir, verkefnastjóri Djúptæknikjarna, og Eiríkur Stephensen, innviðastjóri Háskóla Íslands, starfa með byggingarnefnd Djúptæknikjarnans.

Fyrsta verkefni byggingarnefndar verður að skrifa forsögn fyrir bygginguna. Við þá vinnu verður lögð áhersla á samráð við fjölmarga sérfræðinga og leitað eftir fyrirmyndum erlendis frá um sambærilegar byggingar. Síðan verður efnt til forvals um hönnun byggingarinnar.

Rannsóknarinnviðir á Íslandi (Samstarfssjóður háskólanna)
Samhliða undirbúningi byggingar er unnið að kortlagningu rannsóknarinnviða á Íslandi og mótun rekstrar- og viðskiptamódels sem hefur það hlutverk að halda utan um skilgreinda rannsóknarinnviði innan eða utan Djúptæknikjarna. Jafnframt er unnið að því að velja skráningarkerfi fyrir rannsóknarinnviði á Íslandi.

Verkefnið er unnið í samstarfi Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum, Háskólans á Akureyri, Matís og Tækniseturs en Vísindagarðar fara með verkefnastjórnun. Fulltrúar þessara stofnana sitja í stýrihóp verkefnisins.

Samstarfsyfirlýsingar
Þriðji hluti verkefnisins er áframhaldandi vinna að samstarfsyfirlýsingum m.a. við háskóla, stofnanir og fyrirtæki.