HVAÐ ERU VÍSINDAGARÐAR?

Vísindagarðar eru þyrpingar þekkingarfyrirtækja sem staðsett eru í eða við háskólaumhverfi. Markmið með uppbyggingu slíkra garða er að skapa öflugt nýsköpunar og viðskiptaumhverfi sem skapar fyrirtækjum og viðkomandi háskólum samlegðaráhrif, báðum til hagsbóta. Vísindagarðar gegna víðast í vestrænum samfélögum stóru og sívaxandi hlutverki við að efla og auka framþróun þekkingarhagkerfisins og draga að sér ungt menntað vinnuafl sem er mikilvægasta auðlindin í þekkingarhagkerfi framtíðarinnar. Vísindagarðar eru frábrugðnir venjulegu fyrirtækjaumhverfi og sérhönnuðu fyrirtækjaumhverfi að því leyti að í þeim er skapað samfélag háskóla, þekkingarfyrirtækja og rannsóknarstofnana sem leggja hvert öðru lið með sambúðinni og byggja upp styrkleika heildarumhverfis sem er meiri en samanlagður styrkleiki þeirra sem einstök fyrirtæki. Alls staðar í þróuðum vestrænum þjóðfélögum er nú litið til slíkra þekkingarþyrpinga sem öflugar aðferðar til að hraða og efla nýsköpun. Háskóli Íslands er langöflugasti og stærsti rannsóknarháskóli landsins. Hann er staðsettur í miðborgarumhverfi, en þetta tvennt skapar kjöraðstæður fyrir þróun nútímalegra vísindagarða. Háskólinn hefur hlutverki að gegna við miðlun þekkingar til atvinnulífs í þeim tilgangi að efla samkeppnishæfni.
Markmið með Vísindagörðum er að gefa fleiri fyrirtækjum og stofnunum kost á að staðsetja sig í háskólaumhverfi þar sem samlegðaráhrif atvinnuulífs og rannsóknastofnana fá að njóta sín. Með Vísindagörðum er stuðlað að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, byggð brú milli háskólasamfélagsins og atvinnulífsins og þannig stuðlað að aukinni verðmætasköpun.


HVAÐ ERU VÍSINDAGARÐAR HÁSKÓLA ÍSLANDS

Háskóli Íslands stofnaði Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. árið 2004. Félagið starfar í þágu almenningsheilla og eru tveir eigendur; Háskóli Íslands (94,6%) og Reykjavíkurborg (5,4%). Tilgangur félagsins er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun með því að skapa kjöraðstæður til slíks í vísindagörðum á lóð Háskóla Íslands.


HVERT ER HLUTVERK VÍSINDAGARÐA?

Hlutverk Vísindagarða Háskóla Íslands er að vera alþjóðlega viðurkenndur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélags á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð.


HVERJIR ERU SAMSTARFSAÐILAR VÍSINDAGARÐA?

Meðal samstarfsaðila eru Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining ehf., Alvotech hf., Alvogen ehf., CCP hf., Lífvísindasetur Háskóla Íslands, ArcticLAS ehf.


HVERnig fyrirtæki eiga heima á vísindagarðasvæðinu?

Við viljum fyrst og fremst laða að leiðandi fyrirtæki á sínu sviði; leiðandi frumkvöðla og fjárfesta í sprotastarfsemi.


hver eru helstu verkefni vísindagarða?

Meðal verkefna er að byggja upp öfluga innviði, tengslanet og miðla af reynslu og þekkingu. Vísindagarðar er í þágu alls landsins en miðja þessa samfélags er á lóð Háskóla Íslands þar sem sumir samstarfsaðilanna hafa þegar komið sér fyrir.


hver eru gildi vísindagarða?

Gildi Vísindagarðanna eru þrjú:
- Opið frjálst og þekkingardrifið samfélag
- Samspil, sáttmáli og samvirkni á milli aðila
- Gleði, gæska og gróskumikið umhverfi