Fjallað um viðburðaríkt starfsár og árangur á aðalfundi Vísindagarða
Aðalfundur Vísindagarða var haldinn 24. mars þar sem farið var yfir árangursríkt og þróttmikið ár.
Sigurður Magnús Garðarsson, formaður stjórnar, opnar aðalfund Vísindagarða.
Sigurður Magnús Garðarsson formaður stjórnar Vísindagarða skýrði frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári á aðalfundi í mars. Hér að neðan er stiklað á stóru yfir það sem kom fram en hægt er að skoða árskýrssluna nánar hér.
Hlutverk Vísindagarða er að vera tengslatorg nýsköpunar. Stefna Vísindagarða, sem grundvölluð er á nýlegri stefnumótunarvinnu, byggir á þeirri framtíðarsýn að hugvit breyti heiminum og sé framtíðarauðlind Íslands. Hlutverk Vísindagarða sé að byggja upp skapandi umhverfi fyrir nýjar lausnir, fyrirtæki og störf sem skila auknum virðisauka og lífsgæðum. Þá eru áherslusvið Vísindagarða lífvísindi, tækni og skapandi greinar en þau meginsvið byggja á helstu stólpum í núverandi starfsemi svæðisins sem og framtíðarhorfum
Stefnumótun Vísindagarða heldur áfram í nánu samstarfi við MIT DesignX hjá Massachusetts Institute of Technology og EnnEmm auglýsingastofu. MIT DesignX ferlið felst í að móta nýja stefnu með því að byrja með vítt mengi af upplýsingum sem unnið er með kerfisbundið með vinnustofum og djúpviðtölum við hagaðila þar til afmörkuð stefna hefur verið mótuð. Dr. Svafa Grönfeldt, prófessor við MIT, leiðir stefnumótunina. Framundan þessu tengt er opinber heimsókn Vísindagarða til MIT í Boston í apríl og verða niðurstöður stefnumótunar kynntar að fullu í kjölfar þess.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands ávarpaði fundinn.
Uppbygging
Alvotech, Háskóli Íslands og Vísindagarðar HÍ hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í Djúptæknisetri, rannsóknarsetri sem rís við Bjargargötu 3 í Vatnsmýri. Jafnframt hafa aðilarnir gert samning um leigu á húsnæði í Frumunni, Klettagörðum 6, fyrir starfsemi Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja á sviði iðnaðarlíftækni.
Umræður við Reykjavíkurborg varðandi Randbyggð við Hringbraut hafa gengið vel. Stefnt er að því að reisa tvö vestustu húsin og verið er að ljúka deiliskipulagi fyrir þau.
Þessi mynd sýnir á myndrænan hátt uppbyggingu og þróun á lóðum og svæði Vísindagarða í Vatnsmýrinni.
Alþjóðlegt samstarf
Vísindagarðar undirrituðu samning um stefnumótandi samstarf við Sophia Antipolis, fyrsta vísinda- og tæknigarð Evrópu. Garðurinn er staðsettur í fögru umhverfi í suðausturhluta Frakklands og er metinn á yfir 5,6 milljarða evra.
Samningurinn var undirritaður af Þóreyju Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Vísindagarða, og Jean Pierre Mascarelli, stofnanda og forseta Sophia Antipolis, á MIPIM ráðstefnunni í Cannes.
Sophia Antipolis hýsir í dag yfir 2.500 fyrirtæki og þar starfa rúmlega 44 þúsund manns frá meira en 80 þjóðlöndum.
Samstarfið mun styrkja alþjóðleg tengsl Vísindagarða verulega. Jafnframt mun það opna fjölmörg tækifæri fyrir fyrirtæki innan Sophia Antipolis til að nýta sérstaka staðsetningu Íslands, náttúruauðlindir og hreina orku til vísinda- og tækniþróunar í framtíðinni.
Djúptæknisetur
Unnið var áfram að undirbúningi byggingar fyrir djúptæknisetur á lóð Vísindagarða, að Bjargargötu 3. Djúptæknisetrið snýst um rými til rannsókna og opna rannsóknainnviði.
Djúptæknisetrið tengist einnig verkefninu Rannsóknainnviðir á Íslandi sem hlaut styrk úr Samstarfssjóði háskólanna og er hluti af sameiginlegri stefnu stjórnvalda, Háskóla Íslands og Tækniþróunarsjóðs. Það snýst um skráningu innviða, að draga saman á einn stað háskóla, stofnanir og fyrirtæki til samvinnu og samnýtingar tækjabúnaðar. Kortlagning rannsóknainnviða er hafin með innleiðingu hugbúnaðarkerfisins Clustermarket á Íslandi.
Opið forval fyrir hönnun á djúptæknisetri stóð yfir síðasta haust.
Blómlegt mannlíf í Mýrinni
Mýrin, samfélag frumkvöðla á Vísindagörðum, er fjölbreytt samfélag fyrirtækja, sportafyrirtækja og frumkvöðla staðsett í Grósku. Nándin við háskólann, aðra sprota og leiðandi fyrirtæki í þekkingariðnaðinum hefur skapað blómlegt mannlíf og liðkað fyrir tengslamyndun.
Svipmyndir frá aðalfundi.
Nýtt starfsfólk
Nýtt starfsfólk hefur bæst í starfshóp Vísindagarða, þau Gísli Karl Gíslason og Íris Hrund Þórarinsdóttir. Þau heyra öll beint undir framkvæmdastjóra Vísindagarða og hafa þegar hafið störf, Gísli Karl á síðastliðnu ári, Íris Hrund núna í vor.
Gísli Karl hefur verið ráðinn til Vísindagarða sem verkefnastjóri fyrir starfsemi Vísindagarða með áherslu á stefnumótunarvinnu, samstörf og tækniþróun. Gísli er með bakgrunn í tölvunarfræði og hefur starfað fyrir innlend og alþjóðleg tækni- og nýsköpunarfyrirtæki.
Íris Hrund tekur við nýrri stöðu samfélags- og samskiptastjóra þar sem hún mun m.a. sérstaklega hlúa að nýsköpunarsamfélagi Mýrarinnar í Grósku. Íris er menntaður verkefnastjóri með sérþekkingu á markaðsmálum og skapandi greinum, auk þess sem hún býr yfir áralangri reynslu úr frumkvöðlastarfsemi.
Gísli Karl Gíslason og Íris Hrund Þórarinsdóttir, nýtt starfsfólk Vísindagarða.
Samstarfsverkefni
Rætt var um stuðning Vísindagarða við fjölbreytt verkefni og horfur fyrir næsta ár. Meðal verkefna eru meðal annars doktorsstyrkir en ár hvert styrkja Vísindagarðar tvo doktorsnema til þriggja ára rannsókna. Stutt hefur einnig verið við Tengslatorg Háskóla Íslands, Snjallræði háskólahraðal fyrir samfélagslega nýsköpun og námsbrautir HÍ í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði svo fátt eitt sé nefnt.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, doktorsnemi, sagði á fundinum frá doktorsverkefni sínu sem er eitt þeirra sem Vísindagarðar styrkja.