Vísindagarðar Háskóla Íslands

Velkomin í Vísindagarða

Vísindagarðar tengja saman frumkvöðla, fyrirtæki og háskóla sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð.

 
yfirlitsmynd_visindagardar.jpg
 
 

Uppbygging á lóð við Landspítalann

Uppbygging á landi Vísindagarða Háskóla Íslands er í fullum gangi í Vatnsmýrinni, en markmið garðanna er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun í samstarfi við atvinnulífið. Nú færa Vísindagarðar út kvíarnar og halda útboð um svokallaða Randbyggð við Landspítalann, en gert er ráð fyrir byggingum samtals að stærð um 15.000 m2 á svæðinu auk bílakjallara. 

 
 
 
 
visindinefla.jpg

Vísindin efla

Háskóli Íslands stofnaði Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. árið 2004. Félagið starfar í þágu almenningsheilla og eru tveir eigendur; Háskóli Íslands (94,6%) og Reykjavíkurborg (5,4%). Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum, er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun með því að skapa kjöraðstæður til slíks í vísindagörðum á lóð Háskóla Íslands.

 
 
 

Hvað eru Vísindagarðar?

 

Fólk á öllum aldri sem átti leið sína í Háskóla Íslands var tekið tali og spurt út í hvað það vissi um Vísindagarða.

 
 
 

Samstarf

Vísindagarðar Háskóla Íslands er samfélag aðila sem hafa það sameiginlega markmið að skapa kjöraðstæður fyrir rannsóknir og nýsköpun á Íslandi. Meðal verkefna þessa samfélags er að byggja upp öfluga innviði, tengslanet og miðla af reynslu og þekkingu. Vísindagarðar er í þágu alls landsins en miðja þessa samfélags er á lóð Háskóla Íslands þar sem sumir samstarfsaðilanna hafa þegar komið sér fyrir. Meðal samstarfsaðila eru Háskóli ÍslandsÍslensk erfðagreining ehf.Alvotech hf.Alvogen ehf.CCP hf.Lífvísindasetur Háskóla Íslands, ArcticLAS ehf.

 
 
 

Ég sé fyrir mér samfélag þar sem ríkir mikil gleði, jákvæðni og uppbygging.

Eiríkur Hilmarsson 2018

 
 
 

Stjórnin

Í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. eru Hilmar Bragi Janusson, forstjóri líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði, formaður, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastjóri Icelandair Group, Guðmundur Hafsteinsson, Stefán Eiríksson, borgarritari og Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor. Til vara eru Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Advania og stjórnarformaður Virðingar (1. varamaður) og Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor (2. varamaður).

 
 
 

Fólkið í brúnni

Hrólfur Jónsson tók við starfi framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands 1. maí 2018. Hrólfur var áður skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg og sat fyrir hönd borgarinnar í stjórn Vísindagarða. Jafnframt því að sinna hlutverki framkvæmdastjóra mun hann áfram sitja í stjórninni fyrir hönd borgarinnar, en frá því að Reykjavíkurborg eignaðist hlut í félaginu árið 2012, hefur Hrólfur verið fulltrúi hennar í og starfað með Eiríki Hilmarssyni að ýmsum málefnum félagsins.

Þá hafa Vísindagarðar fengið til liðs við sig Elísabetu Sveinsdóttur, en eins og fram kemur í ávarpi formanns stjórnar verður aukin áhersla á kynningarmál næstu misserin. Elísabet hefur langa og víðtæka reynslu í markaðs- og kynningarmálum, m.a. fyrir Háskóla Íslands. Mikilvægt er að tengja saman kynningarmál Háskólans og Vísindagarða auk þeirra fyrirtækja sem þegar hafa komið sér fyrir á Vísindagarðasvæðinu. Meðal fyrstu verkefna hennar verður að mynda samráðshóp um kynningarmál svæðisins þar sem í eiga sæti fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar, Grósku, Alvogen/Alvotech, Félagsstofnunar stúdenta, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.

 
stjorn.jpg