Mýrin er samfélag frumkvöðla á Vísindagörðum HÍ, í Grósku. Við bjóðum skrifstofur, föst og laus borð, kaffi- og fundaraðstöðu, læsta skápa og hjólageymslu, svo eitthvað sé nefnt. Nánd við háskólann, aðra sprota og leiðandi fyrirtæki í þekkingariðnaðinum skapar blómlegt mannlíf og liðkar fyrir tengslamyndun.

Lífið í Mýrinni

Í nýsköpunarsetrinu Mýrinni vinna einyrkjar og lítil fyrirtæki að því árið um kring að hrinda hugmyndum í framkvæmd.

„Þetta er frumkvöðlasamfélag. Það er mjög mikill asi, mjög mikil framtíðarhugsun og maður er alltaf að kynnast nýju fólki,“ segir Atli Þór Jóhannsson hjá Pikkoló sem reka nokkrar kældar móttökustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk getur sótt fersk matvæli.

Frumkvöðullinn Safa Jemai bætir við: „Ég er forritari. Við hliðina á mér situr kannski sölumaður og svo er þarna ljósmyndari. Og svo komum við öll saman. Það er það sem mér finnst svo geggjað við að vera á Vísindagörðum.“ Enda hefur Safa ýtt fjölmörgum og einkar ólíkum verkefnum úr vör síðustu ár, þ.á.m. kryddmerkinu Mabrúka og hugbúnaðarhúsinu Víkonnekt.

Mýrarbúar eru sammála um að það sé mikill styrkur af því að hafa Klak - Icelandic Startups, Auðnu - tæknitorg, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Georg jarðvarmaklasa innan Mýrarinnar en nándin við fyrirtækin á efri hæðum hússins og rannsóknarstarf háskólann skipti ekki síður máli. „Vísindagarðar og Mýrin eru svona tengslatorg fyrir sprotasenuna,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klaks.

Mikilvægast er samt kannski að hafa hvort annað, segir Anna Björk Theodórsdóttir, stofnandi gagnagreiningarfyrirtækisins Oceans of Data: „Það er ómetanlegt að geta haft stuðning frá öðrum frumkvöðlum; fólki sem er á sambærilegri vegferð og maður sjálfur.“

Sprotamýri Háskóla Íslands

Sprotamýri er frumkvöðlasetur Háskóla Íslands í Grósku þar sem nemendur og starfsmenn geta fengið aðstöðu í Mýrinni - nýsköpunarsetri Vísindagarða Háskóla Íslands og aðstoð frá KLAK - Icelandic Startups við að vinna að framgangi nýsköpunarverkefna sinna, þeim að kostnaðarlausu. Í Sprotamýri eru til umráða 12 borð í opnu rými. Borðunum er úthlutað þrisvar á ári, vorönn, haustönn og yfir sumarið

Viltu vera í Mýrinni?

Leiguleiðir í boði:

Fast borð: Þú átt þitt borð sem er til taks allan sólarhringinn. Verð: 36.100 kr. + 2.400 kr. aðstöðugjald á mánuði.

Laust borð: Þú velur úr þeim lausu borðum sem eru í boði hverju sinni, dag eða nótt. Hentar þeim sem hafa minni viðveru og búnað. Verð: 18.000 kr. + 2.400 kr. aðstöðugjald á mánuði.

Skrifstofur: 4-8 manna skrifstofur fyrir sprotafyrirtæki

Mýrarbúar hafa aðgengi að sex fundarherbergjum, kaffi, te, ísskáp og örbylgjuofni. Þá er nettenging, aðstaða til að prenta, læstir munaskápar og pósthólf innifalið í leigugjaldi. Hægt er að skipuleggja viðburði á opnu svæði fyrir framan Mýrina. Í kjallara eru búningsklefar og sturtuaðstaða auk læstrar hjólageymslu.

Hver leigusamningur er gerður til 18 mánaða. Eftir þann tíma meta Vísindagarðar stöðuna út frá settum skilyrðum. Leigusamningar eru uppsegjanlegir hvenær sem er á tímabilinu af hálfu leigjenda.