Nýsköpun 360°

Nýsköpun 360° var ráðstefna sem Vísindagarðar héldu í samstarfi við alþjóðleg samtök vísindagarða IASP (International Association of Science Parks). Erlendir og innlendir fræðimenn ræddu þátt vísinda og nýsköpunar í þróun nýrrar tækni sem getur skipt sköpum í baráttu mannkyns við loftslagsvánna. Í forgrunni voru rannsóknir á sviði, orkumála, sjálfbærni og geimvísinda. Í pallborði var fjallað um áskoranir og tækifæri við innleiðingu byltingarkenndrar nýrrar tækni til að sporna við loftslagsbreytingum.

Umferðin & okkar daglega líf

Umferðin & okkar daglega líf er viðburðaröð á vegum Vísindagarða í Grósku. Vísindagarðar eru í hjarta Vatnsmýrarinnar, steinsnar frá miðborginni. Mikil umræða hefur verið um samgöngur í ljósi samgöngusáttmálans og borgarlínu og Vísindagarðar vilja horfa til nærumhverfisins í því sambandi: Hvernig munu samgöngumálin í Vatnsmýri þróast til framtíðar? Fyrsti viðburðurinn fór fram 14. febrúar og sá næsti í röðinni fer fram á Hönnunarmars í apríllok.

Samstarfsverkefni

Vísindagarðar leggja eftirfarandi verkefnum lið:

Vísindaþorpið í Vatnsmýri

Vísindaþorpið í Vatnsmýri eða Reykjavik Science City er verkefni á vegum Íslandsstofu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga auk þess að laða erlend fyrirtæki og sérfræðinga til landsins. Í Vísindaþorpinu verður lögð áhersla á uppbyggingu svokallaðrar grænnar og blárrar tækni og lífvísinda.

Tengslatorg

Tengslatorgið miðar að því að stórefla starfsþjálfun fyrir nemendur og efla þannig tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf og hið opinbera. Samstarfssamningur Tengslatorgs og Vísindagarða leggur sérstaka áherslu á starfsþróun nemenda í þeim tilgangi að brúa bilið á milli háskólamenntunar, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar.  ​

Tölvunarfræði HÍ

Vísindagarðar styrkja námsbrautir HÍ í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði um aðstöðu í Grósku, nánar tiltekið á sömu hæð á CCP. Fyrir utan skrifstofur kennara er þar að finna vinnuaðstöðu fyrir meistaranema og doktorsnema, fundarrými, upptökurými fyrir námsefni í vendikennslu og rými fyrir málstofur og viðburði. Þetta er liður í tengslamyndun HÍ og fyrirtækja á Vísindagörðum.

Doktorsstyrkir Vísindagarða

Ár hvert styrkja Vísindagarðar tvo doktorsnema til þriggja ára rannsókna. Nemendur eru valdir með hliðsjón af áherslusviðum Vísindagarða. Þetta eru núverandi styrkþegar:

  • Jonas Karlberg

    Leiðb. Rúnar Unnþórsson

    Bergmálsmiðun (e. echolocation) er að geta áttað sig á umhverfi sínu með endurvarpi hljóðs. Ýmsir blindir einstaklingar hafa náð tökum á því. Með hátæknilegum þrívíðum hljóðhermi er ætlunin að búa til umhverfi til að kenna fólki að nota bergmálsmiðun.

  • Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

    Leiðb. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Laufey Elísabet Löve

    Stafræn stjórnsýsla á í orði kveðnu að jafna aðgengi allra en það er ekki endilega raunveruleikinn. Rannsóknin fjallar um áhrif stafrænnar þróunar í opinberri þjónustu á þátttöku og aðgengi fatlaðs fólks í ljósi samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (CRPD).

  • Amin Amani

    Leiðb. Már Másson

    Kísill er oft notaður við ígræðslur. Verkefnið gengur út á að þróa öruggari og umhverfisvænni leið til þess að virkja yfirborð kísilsins og verja hann bakteríum sem valda oft sýkingum eftir aðgerðir.

  • Atli Fannar Franklín

    Leiðb. Anders Karl Claesson

    Gagnagrunnurinn OEIS er mikið notaður af stærðfræðingum til að fletta upp talnarunum og sjá hvort mynstrið þekkist þegar í rannsóknarheiminum. Rannsóknarverkefnið PERQ er tölvukerfi sem byggir ofan á gögn OEIS til að framkvæma víðar leitir á gögnunum til að framleiða tilgátur um mynstur inntaksins. Markmiðið er að framleiða tól sem er marktækt víðtækara en einföld uppfletting í gagnagrunninum en samt nógu skilvirkt til að hægt sé að keyra það á venjulegri tölvu á skynsamlega stuttum tíma.

  • Maja Biwersi

    Leiðb. Elín Soffía Ólafsdóttir

    Úsnínsýra er örveruhemjandi náttúruefni sem lífmyndast í mismunandi hlutföllum tveggja handhverfa (+) og (-), sem hafa ólíka lífvirkni. Það er spennandi áskorun að skilgreina gen og ensím sem stjórna myndun hreinna handhverfa, sem gætu nýst til framleiðslu nytjaefna með líftækni. Verkefnið mun kanna þau skref í lífmyndunarferli úsnínsýru sem leiða til myndunar handhverfa í Cladonia fléttutegundum, kortleggja gerð þeirra og þau gen og ensím sem standa að baki sérhæfninni.

  • Hulda Einarsdóttir

    Leiðb. Jukka Taneli Heinonen

    Ef markmið Parísarsáttmálans eiga að nást verða borgir að verða miðstöðvar kolefnisbindingar í stað kolefnislosunar. Verkefnið miðar að því að kortleggja losun í byggðu umhverfi og hvernig ný byggingarefni og skipulag geta skilað bindingu í stað losunar.