Árið 1961 veitti Reykjavíkurborg Háskóla Íslands umráð yfir landinu sem Vísindagarðar standa á með því skilyrði að þar yrðu reistir vísindagarðar. Þá var svæðið ekki nema mýri en árið 1999 komst uppbyggingin á skrið þegar Íslensk erfðagreining hóf að byggja sínar höfuðstöðvar sem opnuðu 2003. Síðasta áratug hefur uppbyggingin gengið hratt fyrir sig. Fimm hús og kjarnar hafa verið vígð frá 2012 og fleiri eru í undirbúningi.

Lóðir í þróun

Djúptæknikjarni

Vísindamenn og fyrirtæki hafa lengi kallað eftir betri rannsóknarinnviðum og tækjabúnaði á Íslandi. Vísindagarðar hafa nú tekið ákvörðun um að undirbúa byggingu Djúptæknikjarna þar sem þessum þörfum er mætt. Djúptæknikjarninn sem rís við Bjargargötu 3 mun bylta allri aðstöðu hvað varðar rannsóknir og frumgerðarsmíði og verður mikilvæg stoð fjórðu iðnbyltingarinnar hérlendis. Stefnt er að því að Djúptæknikjarninn opni árið 2028. Byggingarmagn er um 7.700 fermetrar ofanjarðar og 4.000 neðanjarðar.

Randbyggð við Hringbraut

Við Landspítala - Háskólasjúkrahús er gert ráð fyrir randbyggð meðfram Hringbraut á vegum Vísindagarða. Um er að ræða 10.800 fermetra byggingarétt ofanjarðar, í þremur húsum, ásamt um 3000 fermetrum neðanjarðar fyrir bílastæði. Samstarfssamningur við Íslenskar fasteignir liggur fyrir um þróun og uppbyggingu lóðanna.

Viska

Aðstandendur Grósku hafa lýst yfir áhuga á að reisa annað hús með sambærilega starfsemi, þ.e.a.s. „hugmyndahús“ þar sem stórir og smáir atvinnurekendur koma saman í umhverfi sem er drifið áfram af nýsköpun og vísindastarfi. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð árið 2023 og hugmyndir sem lúta að húsinu eru í deiliskipulagsferli. Vinnuheitið á húsinu er Viska og fyrirhugað að það rísi á lóðunum á Ingunnargötu 1-3 milli Grósku og Alvotech.

Leit er hafin að kjölfestuleigjendum í Visku. Endilega hafðu samband ef þú telur að þín starfsemi eigi erindi í húsið.

Lausar lóðir

Svæði Vísindagarða er í þróun. Lóðirnar merktar L og H á skipulagsuppdrætti eru lausar til ráðstöfunar.

Unnið er að hönnun Djúptæknikjarna á lóð J og eins liggur fyrir viljayfirlýsing um þróun hugmyndahúss á lóðum B og E. Samstarfssamningur hefur verið gerður um þróun randbyggðar við Hringbraut.

Lóð L við Eggertsgötu/Bjargargötu (hverfabækistöð) er 6.300 fermetrar. Byggingarmagn ofanjarðar er um 8.600 fermetrar og neðanjarðar um 5.700 fermetrar.

Lóð H við Ingunnargötu 5 er 6.000 fermetrar. Byggingarmagn ofanjarðar er 9.100 fermetrar og neðanjarðar um 8.900 fermetrar.

Húsin á svæðinu

Bjargargata 1

Í júní árið 2015 voru undirritaðir samningar við fjárfestingafélagið Grósku um lóðina við Bjargargötu 1. Í febrúar 2017 hófust byggingarframkvæmdir en húsið var tekið í notkun um mitt ár 2020. Stærð hússins er um 17.500 fermetrar auk bílakjallara eða samtals um 24.000 fermetrar. Höfuðstöðvar CCP eru í húsinu og er tölvunarfræði HÍ staðsett á sömu hæð. Auk þess á Nýsköpunarsetur Vísindagarða þar aðsetur auk fjölmargra annarra fyrirtækja. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Grósku.

Sturlugata 8

Árið 2014 nýtti Háskóli Íslands sér forkaupsrétt og við það eignuðust Vísindagarðar húsnæðið við Sturlugötu 8, þar sem Íslensk erfðagreining er til húsa. Samstarfið milli vísindasamfélagsins í háskólanum og Erfðagreiningar hefur aukist talsvert, helst varðandi nýtingu á hvers kyns aðstöðu og tækjum til rannsókna sem Íslensk erfðagreining hefur yfir að ráða. Íslensk erfðagreining á jafnframt í miklu samstarfi við vísindamenn innan háskólans varðandi stórar rannsóknir á vegum fyrirtækisins og jafnframt er Lífvísindasetur HÍ staðsett í húsinu.

Sæmundargata 21

Samkomulag Vísindagarða, Félagsstofnunar stúdenta og Reykjavíkurborgar var undirritað 2. mars 2016, þess efnis að Félagsstofnun stúdenta byggði rúmlega 240 íbúðaeiningar fyrir stúdenta við Sæmundargötu 21. Þá munu Vísindagarðar eiga bílakjallara í húsinu. Framkvæmdir við bygginguna hófust í apríl 2017 og var nýr stúdentagarður, Mýrargarður, síðan vígður 27. febrúar 2020. Minning Eiríks Hilmarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands, var heiðruð sérstaklega með formlegri opnun samkomusalarins Eiríksbúðar, að viðstaddri ekkju Eiríks, Aðalheiði Héðinsdóttur.

Sæmundargata 15-19

Hátæknisetur systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech var tekið í notkun í júní árið 2016 og stendur við Sæmundargötu 15-19. Innan setursins er unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem væntanleg eru á markað á næstu árum. Þau lyf sem nú eru í þróun eru háþróuð stungulyf sem meðal annars eru notuð við meðferð krabbameins- og gigtarsjúkdóma.