VHI_Takn_Oll_Loop_still.png

Ársskýrsla 2023

Með auknum tekjum Vísindagarða undanfarin þrjú ár hafa umsvif og virkni félagsins aukist. Aukin tækifæri hafa skapast til að vinna að eflingu grunnrannsókna, efla tengsl og standa fyrir fjölbreyttum viðburðum. Samhliða því hefur verið unnið að markaðssetningu félagsins og að vekja athygli á lausum lóðum. Aðeins tveimur lóðum er nú óráðstafað.

Jafnframt var tekið ákvörðun um stærsta verkefni sem Vísindagarðar HÍ hafa ráðist í en það er að byggja rannsóknarhús, djúptæknikjarna, á einni af lóðum félagsins í Vatnsmýrinni.

 Stefnumörkun stjórnar félagsins, sem kláruð var árið 2021 var til grundvallar starfinu á árinu 2023 auk fyrirliggjandi starfsáætlunar. Breytingar urðu á stjórn Vísindagarða á árinu, en Arna Hauksdóttir kom inn í stað Margrétar Helgu Ögmundsdóttur. Hér á eftir er stiklað á stóru í verkefnum félagsins á árinu 2023.

Ávarp rektors Háskóla Íslands, Jóns Atla Benediktssonar

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er alhliða alþjóðlegur rannsóknaháskóli og er nýsköpun í víðum skilningi lykilþáttur í öllu starfi skólans. Birtist þetta ekki aðeins í öflugu rannsóknastarfi, tækniþróun, einkaleyfaumsóknum og sprotafyrirtækjum, heldur einnig á margvíslegan annan hátt á öllum fræðasviðum skólans, s.s. í þróun nýrra leiða til að styðja við nám og kennslu, í bókum sem auðga andann, nýjum lyfjum sem lina þjáningar fólks og skilvirkari leiðum í opinberri þjónustu, svo dæmi séu nefnd.

Stórt skref til frekari eflingar nýsköpunarstarfs hefur verið stigið á síðustu árum með uppbyggingu Vísindagarða HÍ í hjarta háskólakampusins í Vatnsmýrinni. Markmið Vísindagarðanna er að leiða saman háskóla og þekkingardrifin atvinnufyrirtæki til að virkja með markvissum hætti samlegðaráhrif atvinnulífs og rannsóknastofnana og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir ný útflutnings- og atvinnutækifæri á Íslandi. Á svæði Vísindagarða HÍ eru nú þegar starfandi öflug fyrirtæki á borð við líftæknifyrirtækin Íslenska erfðagreiningu og Alvotech og tölvuleikjafyrirtækið CCP sem hefur aðsetur í hugmyndahúsinu Grósku sem hýsir margvíslega nýsköpunarstarfsemi, öflugar stuðningseiningar við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, m.a. á sviði fjármála, ferðamála og arkitektúrs og hönnunar.

Háskóli Íslands á í fjölbreyttu samstarfi við fyrirtæki í Vísindagörðunum. Með slíku samstarfi um rannsóknir og nýsköpun er skotið fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með spennandi tækifærum fyrir ungt fólk, en slíkt hefur bæði efnahagslega og samfélagslega þýðingu fyrir Ísland.

Vísindagarðar Háskóla Íslands eru fjarri því fullbyggðir og eru mörg áhugaverð verkefni fram undan. Í undirbúningi er m.a. djúptæknikjarni sem áformað er að reisa á næstu árum í öflugu samstarfi við stjórnvöld, háskóla og atvinnulíf. Einnig er annað hugmyndahús á teikniborðinu ásamt fleiru.

Við í Háskóla Íslands erum staðráðin í að halda áfram uppbyggingu Vísindagarðanna í samstarfi við stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf með það að markmiði að búa í haginn fyrir farsæla framtíð íslensks samfélags.

Ávarp stjórnarformanns, Sigurðar Magnúsar Garðarssonar

Starfsemi Vísindagarða HÍ fyrir árið 2023 gekk vel. Eins og fram kemur í ársskýrslunni þá hefur fjárhagslegur styrkur aukist með tilkomu þeirrar uppbyggingar sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum. Í því felast margvísleg tækifæri, en einnig áskoranir fyrir stjórn félagsins. Mótuð hefur verið skýr stefna til framtíðar og mikilvægt að tryggja að eftir henni sé farið nú þegar bolmagn er til staðar til að hrinda henni í framkvæmd. Stjórn Vísindagarða hefur gengið samhent til þessara verka í góðu samstarfi við eigendur félagsins, starfsfólk og hagaðila.

Vísindagarðar hafa lagt aukna áherslu á að kynna stefnu sína út á við með því að kynna þau tækifæri sem eru til staðar og þau verkefni sem eru í gangi. Þetta hefur meðal annars verið gert með því að setja nýja heimasíðu í loftið sem lýsir starfseminni ítarlega.

Árið 2021 voru línur lagðar til næstu þriggja ára. Eitt af þeim verkefnum sem ákveðið var að skoða þá, var bygging rannsóknarhúss, svokallaðs Djúptæknikjarna.
Nú hefur stjórn Vísindagarða tekið ákvörðun um að hefja byggingu slíks húss eftir vandaða undirbúningsvinnu. Það er ljóst að þetta er stærsta verkefni Vísindagarða hingað til og verður spennandi að takast á við það á næstu árum.

Áfram verður lögð áhersla á þau verkefni sem þegar voru komin af stað eins og rekstur Nýsköpunarseturs Vísindagarða HÍ, Mýrarinnar, og margvíslegt viðburðahald allt í þeim til gangi að skapa það samfélag sem stefna þeirra gerir ráð fyrir.

Það er skýr vilji eigenda að byggja svæðið hratt upp og þess vegna eru nú tvær af fimm óbyggðum lóðum félagsins í þróun í samstarfi við fjárfesta auk þess sem ein lóð fer undir Djúptæknikjarnann.  Jafnframt er samtal við fleiri aðila um að koma á svæðið og er þar lögð áhersla á að fá aðila innan orkugeirans og sjálfbærni.

Við lifum á tímum stöðugra og hraðra breytinga á samfélaginu. Það felast mikil tækifæri í því að nýta afl Vísindagarða HÍ til að fylgja þessari hröðu þróun eftir, ekki síst fyrir Háskóla Íslands og samstarfsaðila hans. Þannig mun þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni vaxa og dafna og vera betur í stakk búið að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ

    

Fjármál

Tekjur félagsins á árinu 2023 námu 955 m. kr. og eru tilkomnar af leigu húseignarinnar að Sturlugötu 8 sem hýsir Íslenska erfðagreiningu ehf., leigu á byggingarrétti að Sæmundargötu 15-19 og 21, þar sem Alvotech hf. rekur hátæknisetur og af byggingarétti að Bjargargötu 1, þar sem Gróska ehf. rekur Grósku. Tekjur félagsins hækka um 90 millj. kr. milli ára eða um 10,34% og taka að mestu breytingum samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Langtímalán félagsins eru að mestu verðtryggð með sömu vísitölu.

  • Hagnaður félagsins á árinu 2023 nam 378 millj. kr. samanborið við 157 millj. kr. við árið 2022

  • Matsbreyting fasteigna félagsins nam 388,7 millj. kr. samanborið við 287 millj. kr. á árinu 2022

  • Heildareignir félagsins námu 15.004 millj. kr. í árslok 2023 en þar af voru fjárfestingareignir 12.665 millj. kr. og handbært fé og markaðsverðbréf námu 773 millj. kr.

  • Vaxtaberandiskuldir námu 7.956 millj. kr. í árslok og eru 7.162 millj. kr. verðtryggðar skuldir.

  • Eigið fé félagsins nam 5.947 millj. kr. í árslok samanborið við 5.569 millj. kr. í árslok 2022. Eiginfjárhlutfall félagsins er 39,6% í árslok 2023

Tveir hluthafar eru í  félaginu en það eru Háskóli Íslands með 94,6% hlut og Reykjavíkurborg með 5,4% hlut. Í samþykktum félagsins segir að eigendum sé óheimilt að taka hagnað eða arð út úr félaginu.

Reikningar félagsins og fjárhagsáætlanir miðast við áramót. Meðfylgjandi ársskýrslu þessari er undirritaður reikningur ársins 2022.

Ársreikningur 2022 undirritaður sjá hér

Djúptæknikjarni
Í kjölfar stefnumótunar Vísindagarða Háskóla Íslands, sem lauk í júlí 2021, ákvað stjórnin að setja af stað fýsileikakönnun á byggingu Djúptæknikjarna (e. deep tech center).

Verulegur skriður komst á undirbúning fyrir byggingu hússins á lóð Vísindagarða að Bjargargötu 3, þegar staðfesting á þátttöku Háskóla Íslands var samþykkt í Háskólaráði á desemberfundi ráðsins. Stjórn Vísindagarða hafði þá þegar samþykkt að hefja byggingu á kjarnanum. Fjölmargir samráðsfundir, jákvæðar undirtektir auk fjárfestinga- og rekstraráætlana lágu til grundvallar ákvörðuninni. Stefnt er að því að byggingin verði tilbúin til notkunar árið 2028.

Rannsóknarinnviðir á Íslandi
Samhliða undirbúningi djúptæknikjarna er unnið að verkefninu Rannsóknarinnviðir á Íslandi. Verkefnið er samstarfsverkefni háskólanna, Matís og Tækniseturs. Það gengur út á þarfagreiningu á rannsóknarinnviðum, kortlagningu á sameiginlegri aðstöðu hagaðila, mótun rekstrarmódels um innviðina og innleiðingu kerfis eða hugbúnaðar sem heldur utan um helstu rannsóknarinnviði á Íslandi. Verkefnið hlaut styrk úr samstarfssjóði háskólanna en Vísindagarðar fara með verkefnastjórnun.

Klettagarðar
Í nánu samstarfi við HÍ og Alvotech er stefnt á að koma á rannsóknarsetri/nýsköpunarsetri að Klettagörðum 6 í Reykjavík. Fyrirhugað rekstrarfyrirkomulag á sér fyrirmynd í Mýrinni þar sem tveir eða þrír kjölfestuaðilar hafa aðstöðu en síðan geti sprotafyrirtæki einnig leigt þar aðstöðu. Hver og einn hafi þá til ráðstöfunar sitt sérafnotarými en einnig aðgang að sameiginlegum rýmum og tækjum. Er vonast til að setrið geti tekið til starfa um mitt ár 2024.

Markaðs- og kynningarmál

Dagana 3.-5. maí héldum við alþjóðlega ráðstefnu, Nýsköpun 360°, í samstarfi við IASP, sem eru alþjóðleg samtök Vísindagarða.  Um 60 erlendir þátttakendur sóttu ráðstefnuna ásamt um 40 íslenskum. Í tengslum við undirbúning ráðstefnunnar tók allt markaðs- og kynningarefni miklum breytingum. Samfélagsmiðlar voru virkjaðir og viðtöl birtust bæði í blöðum og útvarpi. Gefinn var út prentaður bæklingur á íslensku og ensku um Vísindagarða

Vinna við markaðsefni og heimasíðu hélt áfram eftir ráðstefnuna og er stefnt að því að ný heimasíða og uppfærð ásýnd verði kynnt á vormánuðum 2024.

Vísindagarðar hafa einnig ákveðið að standa fyrir þremur viðburðum sem kallast Umferðin og okkar daglega líf. Röðin er unnin í samráði við Vatnsmýrarhópinn sem skipaður var 2017 og Vísindagarðar hafa verið virkir í. Þar verða kynntir virkir ferðamátar, aðrir möguleikar í samgöngum, rætt um skipulagsmál í tengslum við samgöngur og fleira. Fyrsti fundurinn fór fram í febrúar 2024 og sá næsti fer fram í apríl.

Svæðið, merkingar og fegrun

Aðgengismál á lóð Vísindagarða eru í vinnslu. Framkvæmdir standa enn yfir hjá Alvotech með tilheyrandi raski og þegar þeim lýkur styttist í framkvæmdir við Djúptæknikjarna. Til að bæta ásýnd svæðisins til bráðabirgða var TÓ arkitektum falið að koma með fyrstu hugmyndir að endurbótum, þ.m.t. merkingar og fegrun á yfirborði.

Lóðaleigusamningar

Eitt af meginverkefnum Vísindagarða er að vinna að uppbyggingu þeirra óbyggðu lóða sem enn eru á svæði félagsins. Í apríl var skrifað undir viljayfirlýsingu við Grósku um uppbyggingu á tveim lóðum. Vinnuheiti verkefnisins er Viska.

Einnig var unnið að endurskoðun randbyggðarskipulags við Landspítala í samstarfi við Íslenskar fasteignir og Reykjavíkurborg. Í lok árs lá fyrir svar skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar. Nú er unnið að því að klára endanlegan lóðaleigusamning við Íslenskar fasteignir og í framhaldi af því er fyrirhugað að hefja uppbyggingu á lóðunum. Haft verður samráð við Landspítala um þá starfsemi sem að fer inn í húsin.

Mýrin, nýsköpunarsetur

Framkvæmdir við breytingar á Mýrinni hófust á árinu. Hugmyndir að breytingum á parketi miða að því að fjölga skrifstofum og deiliborðum, útbúa betra félagslegt rými, svokallað Hjarta, og fjölga fundarherbergjum. Þessar breytingar voru unnar í samstarfi við M-Stúdíó.

Föstudagskaffi Mýrarinnar blómstrar. Það er alla föstudaga nema sumarmánuðina. Þar eru kynningar, bæði frá utanaðkomandi aðilum sem og leigjenda í Mýrinni. Þessar stuttu stundir eru fræðandi og efla mjög tengsl.

Fjölmargir viðburðir voru af hálfu leigjenda í Mýrinni, bæði í Fenjamýri og á Parketinu. Langflestir á vegum Klak en einnig á vegum Auðnu, Georg, Ferðaklasans og einstakra fyrirtækja eins og t.d. Pikkoló sem stóð fyrir skemmtilegum opnunarviðburði í tengslum við starfsemi sína.