Gulleggið í Grósku

Stærsta frumkvöðlakeppni landsins, Gulleggið, fer fram í Grósku þetta árið og hefst laugardaginn 15. janúar. Keppnin er opin öllum og þeir sem brenna fyrir nýsköpun eru hvattir til að skrá sig en það kostar ekkert að taka þátt

Gulleggið er góður vettvangur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Mörg flott fyrirtæki byrjuðu einmitt starfsemi sína með þátttöku í Gullegginu sbr. Controlant, Meniga, Pay Analytics, Heima og Solid Clouds svo eitthvað sé nefnt. Fram til þessa hefur verið gerð krafa um að einhver í teyminu hafi verið í háskólanámi á seinustu fimm árum eða sé í virku námi, en í ár verður fallið frá því og er keppnin því í fyrsta sinn öllum opin.

„Við erum spennt fyrir þessum breytingum og bjartsýn á að þetta muni auka þátttöku og sýnileika keppninnar. Gulleggið hefur sannarlega fengið andlitslyftingu og erum við mjög ánægð með útkomuna ,“ segir Ása María Þórhallsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins.

Vinnusmiðjur fyrir alla þátttakendur fara fram helgina 15.-16. janúar, en margir af reyndustu frumkvöðlum landsins ásamt sérfræðingum taka þátt í vinnusmiðjunum. Þar munu keppendur læra að móta hugmyndir sínar og búa til svokallað „pitch deck“ eða stutta glærukynningu sem tekur á öllum þáttum hugmyndarinnar.

Í framhaldinu munu þátttakendur geta sent sína kynningu inn í keppnina og fjölskipuð dómnefnd velur 10 bestu kynningarnar. Þeim hópi verður síðan boðið aftur í kraftmikla vinnuhelgi í lok janúar og að henni lokinni eiga keppendur að vera tilbúnir til að koma fram og selja sína hugmynd af einurð og öryggi. Lokakeppnin fer síðan fram í Grósku 4. febrúar.

Sem fyrr verður lögð rík áhersla á að um hugmyndasamkeppni sé að ræða og mega keppendur ekki hafa aflað fjármagns umfram 2 milljónir króna eða vera farnir að hafa tekjur af hugmyndinni.

Gulleggið verður í Grósku og eru Vísindagarðar einn af samstarfsaðilum þess

Forrige
Forrige

Vísindagarðar taka þátt í Atvinnudögum HÍ 2022

Næste
Næste

Vísindaþorp í Vatnsmýrinni verður til!