Nýsköpunarstofa menntunar stofnuð

Samstarfssamningur um Nýsköpunarstofu menntunar sem starfrækt verður á Vísindagörðum var nýlega undirritaður á milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Það er Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Skóla- og frístundasvið (SFS) Reykjavíkurborgar sem fara með framkvæmd samningsins. Við sama tækifæri endurnýjuðu borgin og háskólinn samstarfssamning um starfsþróun, rannsóknir og nýsköpun til þriggja ára. Nýsköpunarstofan mun styðja við nýsköpun á sviði menntunar, þróun hugmynda og aðferða sem tengjast formlegu og óformlegu námsumhverfi, hæfniþróun, nýjum leiðum í námi og kennslu, stafrænu námsumhverfi og menntun til framtíðar.

Nýsköpunarstofa menntunar verður í Mýrinni, nýsköpunarsetri Vísindagarða HÍ sem staðsett er í Grósku. Markmið Nýsköpunarstofunnar er að leiða saman krafta frumkvöðla úr menntakerfinu, fræðasamfélaginu og fyrirtækjum landsins og skapa fjölbreyttan vettvang til að móta og þróa nýjar aðferðir á sviði náms og menntunar. Stofan mun virkja tengslanet fagfólks, stofnana og frumkvöðla til að innleiða, prófa og meta árangur af nýjum aðferðum á sviði menntunar. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segist fagna þessu framtaki.

„Hlutverk háskóla er meðal annars að vinna með samfélagi og atvinnulífi að nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins. Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands hafa saman skapað einstakan vettvang hér í Vísindagörðum til að efla vísindin, miðlun þeirra og nýsköpun. Menntun og fagþróun í menntakerfum er forsenda þess að einstaklingar og samfélög geti tekist á við flóknar áskoranir, ný störf og nýja hæfni. Þess vegna skiptir miklu að leiða saman krafta hagaðila til að efla nýsköpun á sviði menntunar.“

Í því felst að skipuleggja reglulega viðburði þar sem nýsköpun á sviði menntunar er kynnt og rædd. Unnið verður að því tengja kennara og nemendur í menntavísindum, listum, hugverkum, iðn- og tæknimenntun við frumkvöðlaumhverfið, hraðla og menntakeppnir. Sett verður á laggirnar öflug vefsíða í nafni stofunnar þar sem verður hægt að finna náms- og stuðningsefni um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, framtíðartorg - stafrænan umræðuvettvang um framtíð menntunar og hæfniþróun, verkfærakistu og almenna miðlun um nýsköpun menntunar auk styrkjamöguleika.

Nýsköpunarstofa menntunar mun njóta krafta bakhjarla sem koma að stefnumótun og framkvæmd verkefna og munu skipa fulltrúa í ráðgjafahóp stofunnar.

„Til stendur að stofna til breiðrar samfylkingar um nýsköpun á sviði menntunar með tilstuðlan öflugra bakhjarla úr atvinnulífi, háskólum landsins, þekkingarfyrirtækjum, fagfélögum og sveitarfélögum landsins,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og einn af stofnendum stofunnar. „Samfélög um allan heim eru að gera sér sífellt betri grein fyrir mikilvægi þess að styðja við rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði menntunar. Markmiðið er ekki síst að virkja hugmyndaauðgi og reynsluheim háskólanema, fagfólks, sérfræðinga og frumkvöðla til að þróa nýjar leiðir og nálganir í hinu formlega menntakerfi og á vettvangi óformlegs náms.“

Frá vinstri: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs borgarinnar, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar HÍ, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. MYND/Gunnar Sverrisson

Forrige
Forrige

Aðalfundur Vísindagarða 5. apríl 2022 kl. 13:30

Næste
Næste

Snjallræði verði vettvangur samfélagslegrar nýsköpunar