Arna ný í stjórn Vísindagarða

Arna Hauksdóttir

Arna Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur tekið sæti í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands. Vísindagarðar eru samfélag nýsköpunar og rannsókna staðsett í Vatnsmýrinni þar sem atvinnulífið og háskólasamfélagið styðja markvisst við hugvit til framþróunar og atvinnuuppbyggingar. Á Vísindagörðum eru meðal annars Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining ehf., Alvogen ehf., Mýrin Nýsköpunarsetur, Gróska, CCP hf., Lífvísindasetur HÍ, KLAK, GEORG jarðvarmaklasi og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.

 Auk Örnu sitja í stjórn, Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Marel og stjórnarformaður Íslandsbanka, Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeri ehf. og stjórnarmaður í Samtökum sprotafyrirtækja, og Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg. Háskólaráð skipar fjóra í stjórn Vísindagarða HÍ og Reykjavíkurborg einn fulltrúa.

 „Sem mikil háskólamanneskja finnst mér frábært að sjá hvernig háskólasvæðið hefur þróast til hins betra á síðustu árum. Vísindagarðar hafa spilað stórt hlutverk í þróun svæðisins, meðal annars með tilkomu Grósku sem hægt er að kalla suðupott nýsköpunar á Íslandi. Bæði faglega og persónulega hef ég haft mikla ánægju af því að vera staðsett á svæðinu. Samstarfið milli háskóla, sprotafyrirtækja, þekkingarfyrirtækja og rannsóknarstofnana finnst mér einstakt tækifæri til þess að skila verðmætum í íslensk samfélag. Það er mikil uppbygging fram undan og ég hlakka til að taka þátt í þessu starfi. “ segir Arna Hauksdóttir, nýr stjórnarmaður Vísindagarða HÍ.

 „Það er afar ánægjulegt að fá Örnu til liðs við stjórnina enda mikilvægt að stjórnin búi yfir víðtækri og ólíkri þekkingu til að styðja við og efla fjölbreytta starfsemi Vísindagarða. Einn af grunnþáttum starfseminnar er að byggja upp sjálfbært samfélag sem styður við verðmæta- og þekkingarsköpun sem byggir á grunnrannsóknum og vísindum. Sú vinna hefur gengið vel í Vatnsmýrinni þar sem framtíðarsýn Vísindagarða HÍ að leiða framþróun og skapa virðisauka fyrir Ísland. Fram undan eru metnaðarfull áform um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu þar má nefna fyrirhuguð uppbygging á Djúptæknikjarna, auk uppbyggingu á lóð við hliðina á Grósku, sem ber vinnuheitið Viska. Nú stendur yfir spennandi vinna Vísindagarðar HÍ, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborgar og Grósku að forskrift fyrir samkeppni um byggingu og starfsemi Visku, sem Arkitektafélag Íslands mun leiða  ” segir Sigurður Magnús Garðarsson, formaður stjórnar.

 Arna lauk doktorsprófi í faraldsfræði við Karolinska Institutet í Stokkhólmi árið 2009 og hefur síðan starfað við Háskóla Íslands við kennslu og leiðbeiningu í meistara- og doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Hún sinnir einnig rannsóknum í talsverðum mæli og þá aðallega á áhrifum áfalla á heilsu og er ein af aðalrannsakendum rannsóknanna Áfallasaga kvenna og Líðan í Covid.

 Vísindagarðar eru í eigu Háskóla Íslands (94,5%) og Reykjavíkurborgar (5,5%) og er megináherslan að skapa kjöraðstæður fyrir rannsóknir og nýsköpun á Íslandi. 

Forrige
Forrige

Fjölmenni á kynningarfundi um Djúptæknikjarna

Næste
Næste

Verkefnistjóri við skráningarkerfi rannsóknarinnviða