Undirbúningur að byggingu Djúptæknikjarna formlega hafinn

Djúptæknikjarni mun standa við Eggertsgötu og Bjargargötu í Vatnsmýrinni.

Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands samþykkti einróma á fundi sínum í febrúar að hefja undirbúning að byggingu Djúptæknikjarna í Vatnsmýri.

Áður höfðu verið haldnir kynningarfundir um Djúptæknikjarna fyrir yfirstjórn Háskóla Íslands og opinn fundur í Grósku. Báðir voru þeir vel sóttir og undirtektir við hugmyndir um Djúptæknikjarna almennt góðar.

„Fyrirhugaður djúptæknikjarninn býður upp á mjög mikla möguleika til þverfaglegar samvinnu sem teygir sig inn á öll fræðasvið. Hugmyndin byggir jafnframt á núverandi stefnu Háskóla Íslands, þ.e. að efla grunnrannsóknir og fjölga birtingum vísindagreina ásamt því að bæta aðstöðu skólans og starfsfólks til að taka þátt í alþjóðlegu og innlendu samstarfi,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor.

Sjá nánar: Fjölmenni á kynningarfundi um Djúptæknikjarna

 

Vísindagarðar styrkjast

Vísindagarðar Háskóla Íslands eru tengslatorg og samfélag nýsköpunar og rannsókna, segir Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða.

„Sérstaða þeirra felst í þeim styrkleika sem hlýst af nábýli háskóla, tæknifyrirtækja og rannsóknarstofnana.

Djúptæknikjarni mun skapa aðstöðu sem allir hafa aðgang að. Innviðirnir verða betur nýttir og sýnileiki rannsókna og nýsköpunar aukinn. Líkur aukast á erlendum styrkjum þáttöku í fjölþjóðlegum verkefnum.“

 

Hluti af undirbúningi fyrir Djúptæknikjarna hefur verið vinna Vísindagarða, háskólanna, Matís og Tækniseturs að skráningu rannsóknainnviða á landinu öllu. Stefna Innviðasjóðs er að aðgangur að rannsóknarinnviðum sé opinn og mun Djúptæknikjarni uppfylla hana.

„Þannig fá stjórnvöld betri yfirsýn yfir rekstur og notkun innviða sem þau fjármagna úr Innviðasjóði. Hann verður mikilvægur þáttur í samstarfi háskólanna og í takt við áherslur stjórnvalda bæði hvað varðar rekstur og fjárfestingar,“ segir Sigurður.

„Með tilkomu djúptæknikjarnans skapast einnig margvíslegir möguleikar til að gera rannsóknar- og þróunarsamninga við stofnanir og fyrirtæki en markmiðið er að Vísindagarðar séu suðupottur nýsköpunar sem leiðir framþróun og skapar virðisauka fyrir land og þjóð.“

Stefnt er að því að byggingu hússins ljúki árið 2028.

Yfirlit yfir þróun Vísindagarða Háskóla Íslands.

Yfirlit yfir lausar lóðir á svæði Vísindagarða HÍ í Vatnsmýri. Sjá nánari upplýsingar hér

Forrige
Forrige

Umferðin & okkar daglega líf. Vel sóttur viðburður Vísindagarða

Næste
Næste

Viðburðaröð um samgöngumál haldin í Grósku