Vísindagarðar og Tengslatorg leiða saman nemendur og atvinnulíf

Tengslatorg Háskóla Íslands og Vísindagarðar skólans gerðu með sér samstarfssamning á dögunum með það að markmiði að stórefla samstarf og samtal milli háskólasamfélagsins og atvinnulífsins með sérstakri áherslu á starfsþróun nemenda í námi og nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi.

„Við stefnum að því að vinna sameiginlega að eflingu nýsköpunarhugsunar meðal nemenda og skapa hugmyndum þeirra farveg, til dæmis með tengingu við Mýrina sem er nýsköpunarsetur Vísindagarða í Grósku í Vatnsmýri,“ segir Jónína Kárdal, verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ sem er alhliða atvinnu- og verkefnamiðlun fyrir nemendur og liður í að efla tengsl Háskóla Íslands við samfélagið, atvinnulífið og hið opinbera í samræmi við stefnu skólans.

„Eitt af hlutverkum Vísindagarða er að vera suðupottur nýsköpunar og leiða saman annars vegar atvinnulíf og hins vegar starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands svo að til verði ný tækifæri til rannsókna, verkefna og starfsþróunar. Hér skapast upplagt tækifæri að efla samtalið enn frekar við atvinnulífið í landinu og tengja háskólastarfið enn betur við þróun mála á vinnumarkaði. Með samningnum verður enn meiri áhersla á samvinnu um einstök verkfni milli Tengslatorgs og Vísindagarða, eins og Atvinnudaga HÍ sem hafa vaxið og dafnað undanfarin ár,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, markaðs- og kynningastjóri Vísindagarða.

Samningurinn var undirritaður í Grósku af þeim Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Hrólfi Jónssyni, framkvæmdastjóra Vísindagarða HÍ.

Forrige
Forrige

Snjallræði verði vettvangur samfélagslegrar nýsköpunar

Næste
Næste

Vísindagarðar verði suðupottur grósku og nýrra hugmynda!