Vísindagarðar verði suðupottur grósku og nýrra hugmynda!

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hefur mikinn áhuga á framþróun og eflingu Vísindagarða og fylgist vel með starfseminni. Hann segir hlutverk þeirra í framtíðinni sé að vera sá staður þar sem nýjar hugmyndir fæðist og eru þar af leiðandi gríðarlega aðlaðandi fyrir fyrirtæki að tengjast.

„Í mínum huga eru Vísindagarðar einn mest spennandi vaxtarbroddurinn í starfi Háskóla Íslands. Eins og þróunin hefur verið undanfarin misseri þá er margt að gerast og mikill hraði í uppbyggingunni – þarna er snerpan í lagi. Vísindagarðar skipta Háskólann einnig máli þegar kemur að ímyndinni og fela í sér ótal tækifæri að bregðast hratt við nýjum straumum og tengjast atvinnulífinu á öflugan hátt. Mér finnst við núna loksins komin á beinu brautina, við erum að taka flugið eftir margra ára undirbúning ef svo má segja. Jafnframt er fólk almennt að uppgötva ávinninginn af Vísindagörðum smátt og smátt. Gróska er kannski það hús á svæðinu sem færir Vísindagarða nær almenningi og þeir urðu með því áþreifanlegri ef svo má segja. Margir veltu fyrir sér hvernig þetta hús myndi passa inn í hugmyndafræði Vísindagarða en nú er það orðið að veruleika og þá standa jákvæðu viðbrögðin ekki á sér. Þetta hús skapar gríðarleg tækifæri og setur Vísindagarða enn betur á kortið. Nú þurfum við að einhenda okkur í að ráðstafa þeim lausu lóðum sem eru í boði á svæði Vísindagarða og fá fleiri spennandi fyrirtæki inn á svæðið. Það hefur ekkert upp á sig að bíða – við þurfum að keyra málin áfram. Ein þessara lóða er hugsuð fyrir hús þar sem starfsemi Háskólans færi fram og gengur undir nafninu Torg Jónasar Hallgrímssonar. Við þurfum að finna því skýran farveg þannig að Háskólinn sé með sterkt akkeri inni á svæðinu. Við erum með starfsemi í öllum húsunum sem þegar hafa risið, hjá Íslenskri erfðagreiningu, Alvotech og Grósku þar sem CCP og nýsköpunarsetrið eru til húsa, en það er svo margt fleira sem við getum gert og við eigum að gera það hratt!“

Jón Atli sér einnig fyrir sér að með vaxandi styrk Vísindagarða verði til fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri fyrir nemendur og því klárt samkeppnisforskot fyrir bæði starfsfólk og nemendur skólans.

„Mig dreymir um eitt sameinað samfélag með heildartengingu alls háskólasvæðisins. Þá er ég að tala um veitingastaði, Hámu, kaffihús og fleira þannig að fólk fari á milli ólíkra hluta svæðisins, spjalli saman og myndi þannig nýjar tengingar og grundvöll samstarfs. Út úr þessu gæti komið heilmikill fjöldi hugmynda sem færa með sér ný tækifæri og sprota fyrir íslenskt samfélag. Háskólinn starfar á breiðum grundvelli og við teljum að það gagnist fyrirtækjum sem eru og verða með starfsemi á Vísindagörðum vel – þannig hagnast allir. Í tilfelli CCP erum við t.d. að tala um samstarf á mjög breiðum grundvelli.“

Jón Atli vill meina að háskólar leiki lykilhlutverk í nýsköpun í samfélögum og það að Vísindagarðarnir séu að eflast innan háskólasvæðisins mun hjálpa Háskólanum að sinna því hlutverki enn betur. Hann segir að nýsköpun og frumkvöðlamenning sé mikilvæg í öllu starfi skólans og að það sé sérstaklega gaman að vinna með nemendum þar sem eðli háskóla sé að sinna grunnrannsóknum og alla jafna geti sprottið upp margar hugmyndir sem hægt er að vinna áfram.

„En það er líka hægt í minni verkefnum með nemendum þar sem fram geta komið mjög efnilegir sprotar sem hægt er að þróa frekar. Þegar ég starfaði sem prófessor í rafmagnsverkfræði var vinnan með nemendum eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði. Nemendur eru yfirleitt til í að stökkva á eitthvað nýtt og spennandi, slá til og sjá hvert það leiðir. Með nýsköpunarsetri í Grósku sköpum við líka nýjan farveg fyrir allar þessar hugmyndir og það er mjög mikilvægt að mínu mati. Ég vil líka nefna að eitt af því sem við leggjum áherslu á í háskólanum er þverfræðileiki – að samtvinna ýmislegt sem kemur frá mörgum fræðigreinum – og það er líka lykill að nýsköpun. Að tengja saman fólk úr ólíkum greinum, fá það yfir í næsta herbergi, spjalla, fá nýja hugmyndir sem geta hjálpað manni að þróa verkefni sín. Vísindagarðar eru sannkallaður suðupottur og tækifæri fyrir nemendur . Þeir eiga líka að vera mest spennandi staðurinn á öllu landinu fyrir skapandi og hugmyndaríkt fólk.“

Forrige
Forrige

Vísindagarðar og Tengslatorg leiða saman nemendur og atvinnulíf

Næste
Næste

Met þátttaka í nýsköpunarhraðli fyrir konur