Miðstöð hönnunar og arkitektúrs undirritar leigusamning við Vísindagarða
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs undirritaði á dögunum samning við Vísindagarða Háskóla Íslands og flytur á næstu vikum í frumkvöðla- og sprotasetrið í Grósku. Setrið opnar á fyrstu hæð hússins, í sambýli við Icelandic Startups, Ferðaklasann, Auðnu tæknitorg og Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands.
“Miðstöð hönnunar og arkitektúrs leggur aukna áherslu á hönnunardrifna nýsköpun sem stuðlar að verðmætasköpun og betra samfélagi. Markmiðið er að íslensk fyrirtæki og stjórnvöld telji sjálfsagt að nýta sér hönnun sem aðferð og tæki í nýsköpun til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs. Það er einstakt tækifæri fyrir okkur að flytja starfsemina í hina glænýju Grósku og tryggja þar með að hönnun og arkitektúr verði sjálfsagður hluti af því framúrskarandi samfélagi frumkvöðla og nýsköpunar”
Segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Í húsinu eru höfuðstöðvar CCP og fjöldi öflugra fyrirtækja og fjárfestar. Þar er einnig aðstaða fyrir ýmsa þjónustustarfsemi og ráðstefnur, auk þess sem skapandi einyrkjum og fyrirtækjum í nýsköpun, þróun og rannsóknum gefst kostur á að vera með aðstöðu í húsinu.