Nýtt frumkvöðla- og sprotasetur opnar í Grósku

Ert þú frumkvöðull eða sproti og vantar aðstöðu?

Vísindagarðar Háskóla Íslands opna á næstunni framúrskarandi aðsetur fyrir frumkvöðla- og sprotafyrirtæki á fyrstu stigum, þar sem boðið er upp á vinnuaðstöðu, fjölbreytta fræðslu og þjálfun. Í setrinu verða einnig fjölmörg tækifæri til tengslamyndunar og fullkomin aðstaða fyrir gróskumikið grasrótarstarf, viðburði, vinnusmiðjur, hakkaþon og keppnir.

Vinnuaðstaða af bestu gerð

Setrið er í hjarta Vísindagarða þar sem nú þegar er að finna lyfjafyrirtækið Alvotech og Íslenska erfðagreiningu. Í sama húsi eru höfuðstöðvar CCP og mörg önnur öflug fyrirtæki og fjárfestar. Þarna er ætlunin að byggja upp framúrskarandi samfélag frumkvöðla með áherslu á að tengja saman viðskipti, tækni og skapandi greinar. Nálægð við háskóla, Landspítala og mörg helstu nýsköpunarfyrirtæki landsins veitir einstakt tækifæri til tilrauna, þekkingarflæðis og verðmætasköpunar.

Hvað er í boði?

Á setrinu verða nokkrir leigumöguleikar í boði. Í opnu rými verður hægt að velja um “laus borð” eða “föst borð”.

  • Laust borð: Leigan miðast við það að þú sitjir á einhverju af lausu borðunum á staðnum sem geta verið mismunandi eftir dögum. Kynningarverð: 15.000 kr. á mánuði + vsk. Leigutími allt að 18 mánuðir.

  • Fast borð: Leigan miðast við að þú eigir ákveðið borð og getir gengið að því vísu dag hvern. Kynningarverð: 30.000 kr. á mánuði + vsk. Leigutími allt að 18 mánuðir.

Báðum þessum kostum fylgir “Munaskápur” þar sem hægt er að geyma dótið sitt eftir hvern dag þar sem rýmið er opið.

Auk borða í opna rýminu verður hægt að leigja stærri rými sem eru hugsuð fyrir lengra komin nýsköpunarfyrirtæki sem vinna í teymum.

  • 15m2 lokað rými/skrifstofa: Verð 1,8 Mkr. á ári + vsk.

  • 25m2 lokað rými/skrifstofa: Verð 3 Mkr. á ári + vsk.

Innifalið í leigu er aðstaða í fundarherbergjum, setustofum og fyrirlestrarýmum setursins, nettenging og aðgangur að prenturum.

Hvernig á að sækja um að fá aðstöðu?

Þeir sem hafa áhuga á að sækja um, senda tölvupóst á netfangið visindagardar@hi.is og tilgreina hvað þeir óska eftir mörgum vinnustöðvum í opnu rými eða hvort þeir kjósa að leigja 15 - 25 fermetra skrifstofu. Þá þarf einnig að koma fram stutt lýsinga á verkefninu og aðrar upplýsingum sem talið er að gagnist við að meta umsóknina.

Hverjir verða á setrinu?

Með þessu nýja og kraftmikla setri verður til opinn vettvangur fyrir öll þau sem áhuga hafa á nýsköpun og sprotastarfi. Eftirtaldir aðilar hafa aðsetur í setrinu, eru með lausa aðstöðu á sínum snærum og styðja frumkvöðla og sprota til eflingar nýsköpunar í landinu:

Icelandic Startups

Ferðaklasinn

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Auðna tæknitorg

Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ

Forrige
Forrige

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs undirritar leigusamning við Vísindagarða

Næste
Næste

Höfuðstöðvar CCP færast í Grósku