Starfsteymi Vísindagarða stækkar
Nýtt starfsfólk Vísindagarða. Frá vinstri: Gísli Karl, Íris Hrund og Sigfús Örn
Gísli Karl Gíslason hefur verið ráðinn til Vísindagarða sem verkefnastjóri fyrir starfsemi Vísindagarða með áherslu á stefnumótunarvinnu, samstörf og tækniþróun. Gísli er með bakgrunn í tölvunarfræði og hefur starfað fyrir innlend og alþjóðleg tækni- og nýsköpunarfyrirtæki.
Þá bættist Íris Hrund Þórarinsdóttir nýverið í teymið í nýrri stöðu samfélags- og samskiptastjóra þar sem hún mun m.a. sérstaklega hlúa að nýsköpunarsamfélagi Mýrarinnar í Grósku. Íris er menntaður verkefnastjóri með sérþekkingu á markaðsmálum og skapandi greinum, auk þess sem hún býr yfir áralangri reynslu úr frumkvöðlastarfsemi m.a. sem meðeigandi Týru verkefnastýringar.
Þá hafa Vísindagarðar einnig ráðið Sigfús Örn Guðmundsson sem verkefnastjóra með áherslu á uppbyggingu Djúptækniseturs og rannsóknarinnviða. Sigfús Örn er menntaður í alþjóðlegum markaðssamskiptum og tengslum við hagaðila frá Árósaháskóla og kemur úr starfi markaðsstjóra hjá Háskóla Íslands. Hann hefur einnig víðtæka reynslu úr alþjóðlegu vísinda- og viðskiptaumhverfi.
Þau Gísli Karl, Íris Hrund og Sigfús Örn heyra öll beint undir framkvæmdastjóra Vísindagarða og hafa þegar hafið störf, Gísli á síðastliðnu ári, Íris fyrr í vor og Sigfús nú í lok maí.