Samtal við fulltrúa úr atvinnulífinu

Á dögunum bauð Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samstarfi við Vísindagarða og Tengslatorg Háskóla Íslands nokkrum fulltrúum úr íslensku atvinnulífi til samtals um það hvernig skólinn og atvinnulíf geti unnið betur saman, ekki síst með það fyrir augum að skapa ný tækifæri fyrir nemendur skólans og mæta sem best þörfum fyrirtækja.

„Háskólinn hefur lengi haft það að markmiði að efla enn frekar tengslin við atvinnulífið í landinu. Liður í því var að heyra í framáfólki í nokkrum af helstu fyrirtækjum landsins og fá fréttir af því sem er að gerast í hinum ýmsu greinum, með það að markmiði að mæta þörfum atvinnulífsins betur,“ segir Jón Atli Benediktsson sem kynnti m.a. starfið innan Hí og lykilatriði í stefnu skólans á fundinum.

Skólinn hefur nú í nokkur ár rekið Tengslatorg sem er alhliða atvinnu- og verkefnamiðlun fyrir nemendur og liður í að efla tengsl Háskóla Íslands við samfélagið, atvinnulífið og hið opinbera í samræmi við stefnu skólans. Nú stendur til að stórefla samstarfið og auka samtalið milli fyrirtækja og HÍ þegar kemur að starfsþróun og atvinnutækifærum nemenda, þar á meðal doktorsnema. Sífellt fleiri nemendur sækja í doktorsnám í Háskóla Íslands og búa þeir að námi loknu yfir þekkingu og hæfni sem getur nýst fjölda fyrirtækja.

„Vísindagarðar Háskóla Íslands taka virkan þátt í því að leiða saman annars vegar atvinnulíf og nemendur Háskóla Íslands, allt í því augnamiði að skapa ný tækifæri fyrir báða aðila. Við viljum leggja okkar af mörkum til að skapa hér fleiri störf í þekkingardrifnu atvinnulífi og skjóta fleiri stoðum undir íslenskt samfélag,“ segir Jón Atli.

Niðurstaða þessa fyrsta fundar sýndi fram á mikilvægi samtals af þessu tagi og gagnkvæm ánægja var með framtakið. Stefnt er að fleiri fundum með fulltrúum úr íslensku atvinnulífi á næstunni og halda samtalinu lifandi.

Forrige
Forrige

Áhersla á samspil menntakerfis og atvinnulífs

Næste
Næste

Aðalfundur Vísindagarða 5. apríl 2022 kl. 13:30