Áhersla á samspil menntakerfis og atvinnulífs

Háskóli Íslands, Reiknistofa bankanna og Vísindagarðar Háskóla Íslands skrifuðu undir viljalýsingu til að koma á formlegu samstarfi sín á milli þar sem markmiðið er að opna samtal um það sem atvinnulífið þarfnast til framtíðar þannig að stúdentar Háskóla Íslands finni þekkingu, hæfni og færni sinni stað á vinnumarkaði.

„Örar tækni- og samfélagsbreytingar munu valda hraðri þróun á vinnumarkaði á næstu árum og auka eftirspurn eftir fólki með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Náið samspil menntakerfis og atvinnulífs er nauðsynlegt til þess að tryggja velsæld, hagvöxt og framleiðni og stuðla þannig að framþróun og farsæld íslensk samfélags og atvinnulífs“, segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.

Markmið þessarar viljayfirlýsingar er að skapa formlegan samstarfsvettvang á milli Háskóla Íslands og RB svo hægt verði að vinna saman að því að meta og mæta þörfum nemenda, atvinnulífs og samfélags.

„Í takt við hraða þróun og örar tæknibreytingar síðustu ára er mikilvægt að menntastofnanir og vinnumarkaðurinn vinni saman. Við hjá RB höfum markvisst lagt okkur fram við að styrkja stöðu kvenna í tæknistörfum og því augljóst að næsta skref er að koma á samtali milli okkar og Háskóla Íslands um hverskonar hæfni og færni atvinnulífið þarfnast til framtíðar,“ segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB.

Þá verður settur á stofn samstarfshópur Háskóla Íslands og RB sem hefur umsjón með samstarfinu og mótar áherslur þess.

Forrige
Forrige

Góður aðalfundur í Grósku

Næste
Næste

Samtal við fulltrúa úr atvinnulífinu