Nýsköpun 360° - Alþjóðleg ráðstefna Vísindagarða

Vísindagarðar standa fyrir ráðstefnunni, Nýsköpun 360°, eða 360° Innovation Conference Reykjavík, sem haldin verður dagana 4. og 5. maí í Grósku í Vatnsmýrinni. Ráðstefnan er haldin í samstarfi við alþjóðleg samtök vísindagarða IASP (International Association of Science Parks). Á ráðstefnunni munu erlendir og innlendir fræðimenn ræða þátt vísinda og nýsköpunar í þróun nýrrar tækni sem getur skipt sköpum í baráttu mannkyns við loftslagsvánna. Í forgrunni eru rannsóknir á sviði, orkumála, sjálfbærni og geimvísinda. Á dagskrá eru einnig pallborðsumræður þar sem reynt verður að draga fram raunhæfa sýn, áskoranir og tækifæri við innleiðingu byltingarkenndrar nýrrar tækni til að sporna við loftslagsbreytingum. Það sem er sammerkt með þeim rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum sem eru til umræðu á ráðstefnunni er einstök jarðfræði Íslands.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Pamela Melroy geimfari og stjórnandi hjá NASA og Dr. John Ludden President of the International Union of Geological Sciences (IUGS), yfirmaður rannsókna hjá Georg jarðvarmaklasa og stjórnarformaður Krafla Magma Testbed (KMT) á Íslandi. Jafnframt munu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Ebba Lund, CEO of IASP, Andri Snær Magnason, rithöfundur, Dr. Christopher Hamilton Associate Professor, Lunar and Planetory Laboratory hjá Arizona State University, Dr. Sveinn Ólafsson Prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Kjartan Ólafsson frumkvöðull hjá Transition Labs, Helga Kristín Torfadóttir doktorsnemi við eldfjalla- og bergfræði hjá Háskóla Íslands, og Dr. Kári Helgason yfirmaður þróunar og nýsköpunar hjá Carbfix meðal annars flytja erindi. Á ráðstefnunni munu einnig fulltrúar nýsköpunarfyrirtækja halda framsögu. Fundarstjóri verður Jörundur Ragnarsson leikari.

„Um leið og við vörpum ljósi á mikilvægi samstarfs háskóla og atvinnulífs og grunnrannsóknir háskólanna og hvernig þetta samstarf birtist á vísindagörðum víðs vegar um heiminn, setjum við þetta í samhengi við þá loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir og allt þarf að snúast um á næstu árum, ef mannkynið á ekki að deyja út,“ segir Hrólfur Jónsson framkvæmdastjóri Vísindagarða.

„Það er ánægjulegt að setja fókus á svona mikilvægt málefni á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu Vísindagarða. Ísland er i fararbroddi í rannsóknum og nýsköpun á sviði orkumála og það er mikilvægt að varpa ljósi á vísindi og nýsköpun sem efla samkeppnishæfni landsins. Hér gefst tækifæri að efla og styrkja alþjóðlegu tengslin og samstarfið við IASP og það má ekki vanmeta tækifærin sem felast í því að hlusta, fræðast og ekki síður tengjast fólki, alþjóðleg ráðstefna líkt og þessi er tilvalinn vettvangur til þess,“ segir Þórey Einarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Vísindagarða.

Nánari upplýsingar og skráningu er að finna hér: https://www.innovation360.is

Forrige
Forrige

Dr. John Ludden einn aðalfyrirlesara á vísindaráðstefnunni Nýsköpun 360°

Næste
Næste

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnir sér starfssemi Vísindagarða HÍ í Grósku