Framtíð nýsköpunar

Alvotech og Háskóli Íslands í samstarfi við Vísindagarða, hleypa af stokkunum nýrri fundaröð um samstarf vísindasamfélags og atvinnulífs fimmtudaginn 9. september með þátttöku framúrskarandi vísindamanna og sérfræðinga í fremstu röð. Á fyrsta fundinum verður áhersla á tækifæri sem felast í líftækni fyrir íslenskt samfélag.

Fundaröðin sem nefnist „Framtíð nýsköpunar - Hvernig vísindasamfélagið og atvinnulífið geta skapað verðmæti saman“ mun standa yfir í vetur með þátttöku fleiri aðila.

Fyrsti viðburðurinn verður sem fyrr segir 9. september kl. 13-16 í Hátíðasal Háskóla Íslands í samstarfi við Aztiq og Sænsk-íslenska viðskiptaráðið. Hann ber yfirskriftina „Líftækni: Mikilvægi tengsla rannsókna og atvinnulífs“ og eins og nafnið bendir til verður áherslan á rannsóknir og þróun líftæknilyfja ásamt þeim tækifærum og ávinningi sem liggur í nánu samstarfi vísindasamfélagsins og atvinnulífsins. Til máls tekur fjölbreyttur hópur innlendra og erlendra fræðimanna og frumkvöðla sem eiga það sameiginlegt að vera í fremstu röð í heiminum á sviði líftækni og vísindarannsókna.

Hér má finna dagskrá viðburðarins og rétt er að geta þess að hann fer fram á ensku.

Samstarf Háskóla Íslands og Alvotech

Háskóli Íslands, Vísindagarðar skólans og Alvotech hafa átt í samstarfi frá árinu 2018 með það að markmiði að efla nýsköpun á sviði líftækni og styðja betur við grunnrannsóknir með áherslu á að mennta fleiri vísindamenn hér á landi. Á þessum árum hefur skapast þverfaglegt samstarf í kennslu, rannsóknum og nýsköpun sem hefur lagt grunn að uppbyggingu á nýjum atvinnugeira sem hefur mikla þýðingu, bæði efnahagslega og samfélagslega, fyrir Ísland. Hátæknisetur Alvotech í Vatnsmýri hýsir þessa uppbyggingu en setrið er jafnframt hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands. Líftæknilyf eru bylting í lyfjaþróun og eru lyf framtíðarinnar. Þau hafa gjörbylt meðferð gigtarsjúkdóma, krabbameins, Alzheimerssjúkdómsins og fleiri sjúkdóma.

Forrige
Forrige

Framtíð nýsköpunar: Ávinningur af samstarfi vísinda og iðnaðar í heilbrigðisvísindum

Næste
Næste

Vísindagarðar taka þátt í vali á bestu viðskiptaáætluninni