Haustferð til Skandinavíu vegna djúptækniseturs
Ferðahópurinn fyrir utan MÆRSK turninn í Kaupmannahöfn.
Vísindagarðar fóru nýverið í skoðunarferð til Stokkhólms, Gautaborgar og Kaupmannahafnar ásamt hönnuðum djúptækniseturs frá Plan Studio, Úti/Inni, COWI og einnig vísindamönnum frá Lífvísindasetri og ArcticLAS. Ferðin var hluti af forhönnunarstigi verkefnisins og markmið hennar var að kynnast norrænum fyrirmyndum í uppbyggingu rannsóknarinnviða, frumkvöðlasetra og tæknidrifinna samfélaga, þar sem rík áhersla er á gæði, sveigjanleika og samnýtingu.
Ferðin hófst með heimsókn í SciLifeLab í Solna í Stokkhólmi, sameiginlegri rannsóknarmiðstöð KTH, Karolinska Institutet og Stockholm University á sviði líf- og læknavísinda. Þar tóku á móti hópnum þau Esmeralda Woestenenk forstöðukona próteinverkfræði á sviði lyfjaþróunar, Per Ljungdahl framkvæmdastjóri SciLifeLabs í Solna og prófessor við Stokkhólms háskóla og Mathias Bjuhr forstöðumaður rekstrarþjónustu. Þau sýndu hópnum rannsóknaraðstöðuna en þarna hafa skólarnir þrír, með stuðningi frá stjórnvöldum, markvisst byggt upp hágæða lífvísindaaðstöðu, sem má nýta bæði til vísindarannsókna og þjónustu við spítala og fyrirtæki. SciLifelabs sýna í verki hvernig samvinna og fjárfesting í sameiginlegum innviðum geta skapað forskot í lífvísindum og stuðlað að hraðri þróun nýrrar þekkingar og hagnýtingar.
SciLifeLab er gott dæmi um sveigjanleika í hönnun, en rannsóknarrýmin og sameiginleg svæði er hægt að aðlaga nokkuð auðveldlega að þörfum rannsóknarhópa. Rannsóknastofur eru í innri kjarna hússins á meðan opið skrifstofurými liggur meðfram útveggjum. Glerveggir tryggja svo dagsbirtu inn í rýmin.
Opið samfélag, notendaupplifun og þverfaglegt umhverfi
Í Stokkhólmi heimsótti hópurinn einnig Forskaren, þar sem Lukas Skärvinge, deildarstjóri eignastýringar, kynnti hugmyndafræði hússins. Forskaren er ný tegund vísinda- og atvinnuhúsnæðis fyrir líf- og heilsutækni þar sem áhersla er lögð á opið samfélag, samvinnu og tengingu milli háskóla, fyrirtækja og rannsakenda. Þarna er að finna aðlaðandi vinnuumhverfi og hlýlega hönnun með náttúrulegum efnum, mikilli birtu og góðri hljóðvist.
Notendaupplifun er greinilega í fyrirrúmi hjá Forskaren, en leigjendur hússins hafa meðal annars aðgang að sérstöku hvíldarherbergi með rúmi, í samræmi við sænska vinnulöggjöf.
Í Gautaborg heimsóttu Vísindagarðar bæði Chalmers FUSE og A Working Lab. Þar tóku á móti hópnum Fredrik Sjöquist umsjónarmaður samninga og húsnæðis og Jonathan Chausset verkefnastjóri fasteignaþróunar frá Chalmers Fastigheter. FUSE er þverfaglegt umhverfi þar sem nemendur, verkfræðingar, frumkvöðlar og hönnuðir vinna saman að lausnamiðuðum verkefnum. Í Chalmers Cleanroom fékk hópurinn síðan innsýn í rekstur og hönnun hátækniaðstöðu fyrir nanótækni og efnavísindi, þar sem nákvæmni og rekstraröryggi eru í forgrunni.
Henny Schollin aðstöðustjóri tók á móti hópnum í A Working Lab, sem er dæmi um sveigjanlega og framsækna hönnun vinnu- og rannsóknarrýma þar sem lögð er áhersla á samnýtingu, framtíðarþarfir og samstarf milli rannsóknahópa.
Hópurinn heimsótti einnig dýratilraunaaðstöðu hjá AstraZeneca í Gautaborg. Aðstaðan er með AAALAC-vottun, sem telst til fremstu gæðastaðla á sviði dýrarannsókna á alþjóðavísu og endurspeglar að starfsemin uppfyllir ströng viðmið um umönnun, umhverfi og siðferðisleg vinnubrögð. Heimsóknin var bæði fræðandi og gagnleg fyrir skilning á því hvernig hægt er að byggja upp hágæða aðstöðu fyrir dýrarannsóknir.
Sveigjanleg hönnun og aðbúnaður
Í Kaupmannahöfn heimsótti hópurinn Mærsk Tower í Panum-byggingunni. Mikið er notast er við náttúrulega lýsingu sem lykileiginleika í hönnuninni en í bygginarreglugerðum er kveðið á um jafnan rétt til dagsbirtu á rannsóknarstofum og í almennu skrifstofurými. Þá gerir notkun náttúrlegs efniviðs húsið allt einstaklega hlýlegt og aðlaðandi.
Mads Mandrup frá arkitektastofunni CF Møller tók á móti hópnum og leiddi skoðunarferð um turninn.
Byggingin, sem lokið var við að reisa árið 2017, er alls 42.700 fermetrar og þar af eru 24.700 sem fara í rannsóknarstofur, skrifstofur og sameiginleg rými. Hússtjórnarkerfið í turninum er mjög notendavænt og auðveldar rekstraraðilum að bregðast hratt við bilunum í tæknikerfum. Fyrirlestrarsalir og vinnuherbergi voru einstaklega vel útfærð með sveigjanlegri uppsetningu, hágæða hljóðkerfum og möguleikum á að útvarpa fyrirlestrum til annarra svæða í byggingunni.
Stuðningur við vísindasprota
Síðar tók Jeppe Seidenfaden tengslastjóri á móti hópnum í BioInnovation Institute, sem hefur byggt upp opið og sveigjanlegt stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki. Aðstaðan hentar sérstaklega vel fyrir fyrirtæki sem koma úr háskólaumhverfinu, en BII rekur sérstök prógröm til að aðstoða rannsóknarhópa við að koma sér upp aðstöðu og þróa hugmyndir úr grunnrannsóknum í hagnýtingu. BII er óhagnaðardrifið félag í eigu Novo Nordisk Foundation.
Hjá Bioinnovation Institute fá sprotafyrirtæki aðgang að rannsóknarrýmum, rannsóknarinnviðum og faglegri stuðningsþjónustu sem hraðar þróun þeirra allt frá frumhugmynd til vaxtarskeiðs.
Teymi Vísindagarða og arkitektar Plan Studio og Úti/Inni heimsóttu einnig SLA landslagsarkitekta, sem kynntu nálgun sína á borgarvistfræði og hugmyndafræðina um “viljandi villt” í landslagsarkitektúr. Þessi stofa er einmitt að vinna að hönnun lóðarinnar í kringum djúptæknisetur í Vatnsmýrinni í Reykjavík og á eftir að leggja mark sitt á nánasta umhverfi hússins.
Síðast en ekki síst heimsótti teymi Vísindagarða góða kollega, þau Emilie Timm verkefnastjóra og Søren Husby leiðtoga viðskiptatengsla, hjá DTU Science Park í Lyngby, sem eru í sjálf í mikilli uppbygginu og eru samstarfsaðilar Vísindagarða við byggingu djúptækniseturs. Hjá þeim er að finna öflugt stuðningsumhverfi og hágæða aðstöðu til leigu fyrir djúptæknifyrirtæki á ýmsum stigum. DTU Science Park eru nú að byggja í bæði Lyngby og Hørsholm.
Fararhópurinn fékk afar góðar móttökur á öllum stöðum. Ferðin var lærdómsrík og veitti verðmæta innsýn í hvernig fremstu rannsóknar- og nýsköpunarsetur Norðurlanda byggja upp aðstöðu, þjónustu og rýmisskipulag sem styður vöxt sprotafyrirtækja, rannsóknarhópa og þverfaglegra samstarfsverkefna. Á öllum heimsóknarstöðum var komið inn á það hvernig samspil stuðnings úr einkageiranum og frá hinu opinbera knýr árangursríkustu rannsóknarmiðstöðvarnar á þessu svæði. Þessi reynsla hópsins spilar lykilhlutverk í áframhaldandi hönnunarvinnu djúptæknisetursins á Íslandi og mun nýtast við mótun innviða sem styðja íslenskt hugvit til framtíðar.