Uppbygging djúptækniseturs á kynningarfundi borgarstjóra Reykjavíkur

Þórey Einarsdóttir framkvæmdastjóri í pontu í Ráðhúsinu.

Athafnaborgin Reykjavík, kynningarfundur borgarstjóra Reykjavíkur var haldinn föstudaginn 10. október og var sýnt frá honum í beinni útsendingu. Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, kynnti metnaðarfulla framtíðarsýn um uppbyggingu djúptækniseturs á fundinum

Setrið mun rísa á svæði Vísindagarða, sunnan við Grósku, og er ætlað að verða heimili fyrir samruna vísinda, tækni og skapandi greina. Erindi Þóreyjar bar heitið „Skapandi samfélag: stökkpallur vísinda og nýsköpunar“ og undirstrikaði hlutverk Vísindagarða sem miðju þar sem háskólar, fyrirtæki og einstaklingar mætast til að vinna saman og miðla þekkingu.

Framtíðin er djúptækni

Djúptækni (e. deep tech) er lykilhugtak í þessari framtíðarsýn og vísar til tækni og vara sem byggja á sérhæfðri vísindalegri þekkingu. Þórey sagði að lausnir framtíðarinnar muni eiga sér stað þegar sérhæfð þekking á ýmsum sviðum rennur saman á máta sem við höfum ekki enn séð fyrir okkur.

Djúptæknisetrið er hannað til að hýsa rannsakendur, frumkvöðla og fyrirtæki sem ætla að byggja framtíðarlausnir á þessum grunni. Áherslusvið setursins verða: lífvísindi, tækni og skapandi greinar.

Sjá nánar: Upplýsingar um fundinn á vef Reykjavíkurborgar.

Ávinningur fyrir Ísland

Bygging djúptækniseturs er næsta stóra skref í sögu Vísindagarða, sem hafa vaxið hratt frá árinu 1999 þegar Íslensk erfðagreining tók til starfa, í gegnum uppbyggingu Stúdentagarða, Alvotech og Grósku.

Djúptæknisetrið, sem er áætlað 11.900 fermetrar á fimm hæðum (þar af einni neðanjarðar), er hannað sérstaklega með sveigjanleika í huga. Hægt verður að taka niður veggi og búa til rými eftir þörfum til að mæta síbreytilegum þörfum nýsköpunarsamfélagsins.

Uppbygging djúptæknisetursins mun hafa verulegan ávinning:

  • Styrkir stöðu Íslands: Setrið opnar á efnahagsleg tækifæri sem felast í blöndu af náttúrulegri og menningarlegri sérstöðu Íslands og nýjustu tækni og vísindum.

  • Styrkir Reykjavík sem nýsköpunarborg: Starfsemin mun hnýta enn þéttari bönd milli allra aðila í Vatnsmýrinni (HÍ, HR, Alvotech, Gróska, DeCode o.fl.).

  • Laðar að fjárfestingar: Búist er við að setrið laði að hæfileikafólk, rannsóknarverkefni og fjárfestingar, sem leiðir til nýrra starfa og aukinnar verðmætasköpunar í hátæknigreinum.

Horfðu á erindi Þóreyjar

Þú getur horft á upptöku af erindi Þóreyjar Einarsdóttur á fundi borgarstjóra í spilaranum hér fyrir neðan.



Næste
Næste

Aðgengi að ofurtölvu fyrir frumkvöðla í Mýrinni