Heimsókn Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, á svæði Vísindagarða
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, kom í heimsókn í Mýrina samfélag frumkvöðla í húsi Grósku á Vísindagörðum í vikunni sem leið.
Kynnt var meðal annars endurmótuð stefna Vísindagarða sem byggir á eftirtöldum áherslusviðum; lífvísindum, tækni og skapandi greinum með áherslu á verðmæti hugvits og hringrás vísinda og nýsköpunar. Einnig var rætt um fyrirhugaða byggingu á Djúptæknisetri sem Vísindagarðar munu byggja á svæði Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Áætlað er að framkvæmdir hefjist næsta vor og ljúki 2029.
Gert er ráð fyrir að húsið hýsi m.a. rannsóknarsetur þar sem háskólar, stofnanir og fyrirtæki um landið allt geta sameinast um uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða. Um er að ræða mikilvægt breytingarverkefni sem fyrirhugað er að vinna í nánu samráði við ráðuneytið.
Einnig héldu KLAK Icelandic startups og Auðna tæknitorg kynningar en bæði félögin eru með starfsstöðvar í Mýrinni. KLAK bauð upp á innlit til tveggja sprotafyrirtæka í húsinu, fór yfir farinn veg og þau áhrif sem félagið hefur haft á íslenskt nýsköpunarumhverfi undanfarin 25 ár. Auðna kynnti starfsemi sína, helstu verkefni og mikilvægi tækni- og þekkingaryfirfærslu fyrir háskóla- og rannsóknarsamfélagið.
Við þökkum ráðherra kærlega fyrir heimsóknina og þann áhuga sem sýndur er starfi og hlutverki Vísindagarða og fögnum áframhaldandi samstarfi við ráðuneytið og fjölbreytt samfélag nýsköpunar og vísinda.